< Opinberun Jóhannesar 1 >
1 Þetta rit er opinberun frá Jesú Kristi og bregður ljósi á nokkra atburði sem í vændum eru. Guð leyfði Kristi að birta Jóhannesi, þjóni sínum, þetta í sýn og eftir það var engill sendur frá himnum til að útskýra sýnina.
2 Allt, sem Jóhannes sá og heyrði, skrifaði hann niður og það eru orð frá Guði og Jesú Kristi.
3 Lesir þú þennan spádóm upphátt fyrir söfnuðinn, munt þú hljóta blessun Drottins og sömuleiðis þeir sem hlusta og fara eftir því, sem lesið er, því að atburðir þessir eru í nánd.
4 Frá Jóhannesi. Til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu. Kæru vinir! Náð sé með ykkur og friður frá Guði, sem er og var og kemur og frá hinum sjöfalda anda, sem er frammi fyrir hásæti hans,
5 og frá Jesú Kristi, hinum trúa votti sannleikans. Hann var sá fyrsti sem reis upp frá dauðum, og hann mun aldrei deyja í annað sinn. Hann er æðri öllum konungum jarðarinnar. Dýrð sé honum! Hann elskar okkur og úthellti blóði sínu til að frelsa okkur frá syndinni.
6 Hann hefur safnað okkur saman inn í ríki sitt og gert okkur að prestum Guðs, föður síns. Lofið hann og gefið honum dýrðina – alla dýrðina! Hann mun ríkja að eilífu! Amen. (aiōn )
7 Sjá! Hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann – jafnvel þeir, sem stungu hann. Þegar hann kemur munu þjóðirnar gráta af hryggð og skelfingu. Amen. Þannig mun það verða.
8 „Ég er Alfa og Ómega, upphaf og endir alls, “segir Drottinn Guð, hinn alvaldi, sem er og var og kemur.
9 Það er ég, Jóhannes bróðir ykkar, sem skrifa ykkur þetta bréf. Ég hef þurft að þjást eins og þið vegna málefnis Drottins. Jesús hefur einnig gefið mér þolinmæði, eins og ykkur, og saman eigum við konungsríki hans. Ég var fangi á eyjunni Patmos. Þar var ég í útlegð fyrir að predika orð Guðs og bera vitni um Jesú Krist.
10 Einn Drottins dag – sunnudag – var ég á bæn. Allt í einu heyrði ég sterka rödd, líka lúðurhljómi að baki mér:
11 „Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti! Skrifaðu niður allt, sem þú sérð, og sendu bréfið til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu: Safnaðarins í Efesus, Smýrnu, Pergamos, Þýatíru, Sardes, Filadelfíu og Laódíkeu.“
12 Þegar ég sneri mér við til að sjá þann sem talaði, sá ég sjö lampa úr gulli.
13 Á milli þeirra stóð einhver sem var eins og Jesús, mannssonurinn. Hann var klæddur síðum kyrtli og bar gullkeðju á brjóstinu.
14 Hár hans var hvítt sem snjór og augun brunnu eins og eldur.
15 Fæturnir glóðu eins og fægður eir og röddin var líkust brimgný.
16 Í hægri hendi hélt hann á sjö stjörnum og út af munni hans gekk tvíeggjað sverð. Andlit hans var sem sólin, þegar hún skín í allri sinni dýrð.
17 Við þessa sýn féll ég að fótum hans sem dauður væri, en þá lagði hann hægri hönd sína á mig og sagði: „Vertu ekki hræddur. Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti!
18 Ég var lifandi, síðan dó ég, en nú lifi ég að eilífu. Óttastu ekki, ég hef lykla dauðans og heljar! (aiōn , Hadēs )
19 Skrifaðu niður það sem þú sást, og það sem þér verður sýnt innan skamms.
20 Stjörnurnar sjö, sem þú sást í hægri hendi minni, og gulllamparnir sjö tákna þetta: Stjörnurnar sjö eru leiðtogar safnaðanna sjö og lamparnir sjö eru sjálfir söfnuðirnir.“