< Sálmarnir 99 >
1 Drottinn er konungur! Þjóðirnar skjálfi! Hásæti hans stendur miklu ofar englunum. Jörðin nötri í óttablandinni virðingu.
2 Drottinn ríkir með hátign á Síon, æðri öllum konungum á jörðu.
3 Þeir tigni hans háa og heilaga nafn!
4 Drottinn er voldugur konungur. Hann elskar réttlæti. Réttvísi og heiðarleiki einkenna stjórnarfar hans. Þannig ríkir hann í Ísrael.
5 Vegsamið Drottin, hinn heilaga Guð! Föllum fram við fótskör hans.
6 Móse og Aron voru prestar hans og Samúel spámaður hans. Þeir báðu til Drottins og hann bænheyrði þá.
7 Úr skýstólpa talaði hann við þá, þeir hlustuðu og hlýddu fyrirmælum hans.
8 Ó, Drottinn, þú ert okkar Guð! Þú svaraðir þeim og fyrirgafst syndir þeirra.
9 Tignið Drottin Guð! Tilbiðjið hann í Jerúsalem á fjallinu helga. Hann er heilagur.