< Sálmarnir 91 >
1 Sæll er sá sem nýtur verndar hins hæsta og hvílir í skjóli hins almáttuga,
2 sá sem getur sagt við Drottin: „Þú ert skjól mitt og vörn! Þú ert minn Guð, ég treysti þér!“
3 Hann frelsar þig úr snörunni og bjargar þér undan plágunni.
4 Hann mun skýla þér undir vængjum sínum. Þar muntu finna öruggt skjól! Hann hefur lofað að vernda þig og frelsa.
5 Nú þarftu ekki lengur að óttast ógnir myrkursins, né örina sem þýtur að morgni.
6 Heldur ekki drepsótt næturinnar né skelfingu um hábjartan dag.
7 Þótt þúsund falli mér við hlið og tíu þúsund mér til hægri handar, þá mun hið illa ekki ná til mín.
8 Ég mun horfa á þegar óguðlegum er refsað en sjálfur vera óhultur,
9 því að Drottinn er skjól mitt! Ég hef valið hinn hæsta Guð mér til varnar.
10 Hvernig ætti þá ógæfa að yfirbuga mig eða plága að nálgast hús mitt?
11 Eins skipar hann englum sínum að vernda þig, hvar sem þú ert.
12 Þeir munu styðja þig á göngunni og forða þér frá hrösun.
13 Þótt þú mætir ljóni eða snák, þá er ekkert að óttast – þú munt jafnvel troða þau fótum!
14 Hefur Drottinn ekki sagt: „Vegna þess að þú elskar mig, mun ég frelsa þig. Ég bjarga þér af því að þú þekkir mig og veist að mér er óhætt að treysta.
15 Þegar þú kallar á mig, svara ég þér. Ég er með þér á hættustund, frelsa þig og held uppi heiðri þínum.
16 Ég mun gefa þér langa og góða ævi og láta þig sjá hjálpræði mitt.“