< Sálmarnir 88 >
1 Drottinn, þú Guð minn og hjálpari minn, ég ákalla þig um daga og nætur.
2 Svaraðu bænum mínum! Hlustaðu á hróp mitt,
3 því að ég er altekinn ótta og finn dauðann nálgast. (Sheol )
4 „Líf hans er að fjara út, “segja sumir, „það er vonlaust með hann.“
5 Ég er einn og yfirgefinn og bíð þess eins að deyja, rétt eins og þeir sem falla á vígvellinum.
6 Þú hefur varpað mér niður í myrkradjúp.
7 Reiði þín hefur þrýst mér niður, hver holskeflan á fætur annarri kaffærir mig.
8 Vinir mínir sneru við mér bakinu og eru horfnir – það var af þínum völdum. Ég er innikróaður, sé enga undankomuleið.
9 Augu mín eru blinduð af tárum. Daglega kalla ég eftir hjálp þinni. Ó, Drottinn, ég lyfti höndum í bæn um náð!
10 Gerðu kraftaverk svo að ég deyi ekki, því hvað gagnar mér hjálp þín ef ég ligg kaldur í gröfinni? Þá get ég ekki lofað þig!
11 Geta hinir látnu vegsamað gæsku þína? Syngja þeir um trúfesti þína?!
12 Getur myrkrið borið vitni um máttarverk þín? Hvernig eiga þeir sem búa í landi gleymskunnar að tala um hjálp þína?
13 Ó, Drottinn, dag eftir dag bið ég fyrir lífi mínu.
14 Drottinn, hvers vegna hefur þú útskúfað mér? Af hverju hefur þú snúið þér burt frá mér og litið í aðra átt?
15 Allt frá æsku hef ég átt erfiða ævi og oft staðið andspænis dauðanum. Ég er magnþrota gagnvart örlögum þeim sem þú hefur búið mér.
16 Heift þín og reiði hefur lamað mig. Þessi skelfing þín hefur næstum gert út af við mig.
17 Alla daga hvolfist hún yfir mig.
18 Ástvinir, félagar og kunningjar – öll eru þau farin. Ég sit hér einn í myrkri.