< Sálmarnir 17 >
1 Drottinn, ó hjálpa þú mér, því að ég er heiðvirður og breytni mín réttlát. Hlustaðu þegar ég hrópa til þín!
2 Úrskurða mig réttlátan svo að allir heyri, þú réttvísi Drottinn.
3 Þú hefur prófað mig, já jafnvel um nætur, en engar illar hugsanir fundið hjá mér, né vond orð mér á vörum.
4 Boðorðum þínum hef ég hlýtt og forðast félagsskap við illmenni og rudda.
5 Ég hef fylgt leiðsögn þinni og ekki farið villur vegar.
6 Ég ákalla þig því að ég veit að þú svarar mér! Já, hlustaðu á bæn mína.
7 Sýndu mér kærleika þinn og náð, þú sem frelsar hina ofsóttu.
8 Vernda mig eins og sjáaldur augans. Hyl mig í skjóli vængja þinna.
9 Óvinir mínir umkringja mig með morðsvip í augum.
10 Þeir eru óguðlegir og beita mig ofbeldi. Hlustaðu á tal þeirra! Hvílíkur hroki!
11 Þeir koma nær og nær, ákveðnir í að troða mig undir.
12 Þeir líkjast gráðugum ljónum sem vilja rífa mig á hol – ungum ljónum sem liggja í leyni og bíða eftir bráð.
13 Drottinn, rís þú upp og hastaðu á þá! Rektu þá frá!
14 Komdu og frelsaðu mig frá hinum óguðlegu sem aðeins leita jarðnesks ávinnings, þeim sem þú hefur gefið auð og völd og ótal afkomendur.
15 En ég sækist ekki eftir veraldlegum auði, heldur því að þekkja þig og lifa réttvíslega – vera sáttur við þig. Ég vil hugsa um þig jafnt á degi sem nóttu og þegar ég vakna mun ég sjá auglit þitt og gleðjast!