< Sálmarnir 115 >
1 Drottinn, gefðu ekki okkur, heldur þínu nafni dýrðina. Gefðu að allir vegsami þig vegna miskunnar þinnar og trúfesti.
2 Hvers vegna leyfir þú heiðingjunum að segja: „Guð þeirra er ekki til!“
3 Guð er á himnum og hann gerir það sem hann vill.
4 Guðir heiðingjanna eru mannaverk, smíðisgripir úr silfri og gulli.
5 Þeir hvorki tala né sjá, en hafa þó bæði munn og augu!
6 Þeir heyra ekki, finna enga lykt
7 og hreyfa hvorki legg né lið! Þeir geta ekki sagt eitt einasta orð!
8 Smiðirnir sem þau gera og tilbiðja, eru engu gáfaðri en þau!
9 Ísrael, treystu Drottni! Hann er hjálpari þinn, hann er skjöldur þinn.
10 Þið prestar af Aronsætt, treystið Drottni! Hann er ykkar hjálp og hlíf.
11 Þú lýður hans, þið öll, yngri sem eldri, treystið honum. Hann er hjálp og skjöldur.
12 Drottinn mun ekki gleyma okkur og hann blessar okkur öll. Hann blessar Ísraels fólk og prestana af Arons ætt,
13 já, alla, bæði háa og lága – þá sem óttast hann.
14 Drottinn blessi þig og börnin þín.
15 Drottinn, hann sem skapaði himin og jörð, mun blessa þig – já, þig!
16 Himinninn tilheyrir Drottni, en jörðina gaf hann mönnunum.
17 Ekki geta andaðir menn lofað Drottin hér á jörðu,
18 en það getum við! Við lofum hann að eilífu! Hallelúja! Lof sé Drottni!