< Jóhannes 16 >
1 „Þetta segi ég ykkur, svo að þið hrasið ekki þegar andstaðan mætir ykkur.
2 Ykkur mun verða bannað að sækja samkomuhúsin og þess er ekki langt að bíða að þeir lífláti ykkur í þeirri trú að þeir séu að gera Guði greiða.
3 Ástæðan er sú, að þeir hafa hvorki þekkt föðurinn né mig.
4 Ég segi ykkur þetta núna, svo að þið munið eftir aðvörun minni þegar það kemur fram. Ég hef ekki sagt ykkur þetta fyrr, því að nú fyrst er það tímabært, þar eð ég er á förum.
5 Nú er komið að því að ég fari til hans sem sendi mig; en enginn ykkar virðist hafa áhuga á að spyrja hvers vegna ég fari.
6 Þess í stað eruð þið sorgmæddir.
7 Ég segi ykkur satt, það er ykkur til góðs að ég fari, því að fari ég ekki, þá mun hjálparinn ekki koma. En ef ég fer, þá kemur hann, því að ég mun senda hann til ykkar.
8 Þegar hann kemur, mun hann sannfæra heiminn um synd hans, um að Guð réttlæti syndara og um að dómurinn sé staðreynd.
9 Hann mun sannfæra heiminn um að syndin felist í því, að þeir trúi ekki á mig.
10 Það að ég fer til föðurins, mun sannfæra menn um að réttlæti Guðs standi þeim til boða.
11 Hann mun einnig sannfæra menn um að hægt sé að umflýja dóminn, því að höfðingi þessa heims, Satan, hefur þegar verið dæmdur.
12 Það er svo margt sem ég vildi segja ykkur, en þið skiljið það ekki enn.
13 En þegar heilagur andi, sannleiksandinn, kemur, mun hann leiða ykkur í allan sannleikann. Hann mun ekki tala af sjálfum sér, heldur skýra ykkur frá því sem hann hefur heyrt. Hann mun fræða ykkur um framtíðina.
14 Hann mun heiðra mig og vegsama, með því að sýna ykkur dýrð mína.
15 Öll dýrð föðurins tilheyrir mér og þess vegna sagði ég að hann heiðri mig og vegsami.
16 Eftir skamma stund verð ég farinn og þið munuð ekki sjá mig, en áður en langt um líður munuð þið sjá mig á ný.“
17 „Hvað á hann við?“spurðu lærisveinarnir hver annan. „Hvað táknar það að „fara til föðurins“? Þetta skiljum við ekki.“
18
19 Jesús varð þess var að þeir vildu spyrja hann og sagði því: „Þið spyrjið hver annan við hvað ég eigi.
20 Heimurinn mun fagna örlögum mínum, en þið munuð gráta. En hryggð ykkar mun snúast í fögnuð, þegar þið sjáið mig á ný.
21 Það verður líkt og hjá konu sem fæðir barn – angist hennar og kvíði hverfur fyrir fögnuði, þegar hún hefur eignast barnið.
22 Nú eruð þið harmi slegnir, en ég mun hitta ykkur á ný og þá munuð þið fagna. Þeirri gleði mun enginn geta rænt ykkur!
23 Þá munuð þið ekki þurfa að biðja mig neins, heldur getið þið snúið ykkur beint til föðurins og beðið hann. Og hann mun gefa ykkur það sem þið biðjið um, vegna þess að þið biðjið í mínu nafni.
24 Þið hafið aldrei reynt þetta áður en nú er komið að því. Biðjið í mínu nafni því að þá munuð þið verða bænheyrðir og fyllast ólýsanlegri gleði!
25 Þetta hef ég sagt ykkur í líkingum, en nú nálgast sá tími, er þess gerist ekki lengur þörf. Þá mun ég tala opinskátt við ykkur um föðurinn,
26 og þið munuð biðja í mínu nafni. Það er óþarfi fyrir mig að biðja föðurinn um að svara bænum ykkar,
27 því sjálfur elskar hann ykkur, af því að þið elskið mig og trúið að hann hafi sent mig.
28 Þegar ég kom í þennan heim, þá kom ég frá föðurnum. Ég yfirgef heiminn á ný og fer aftur til föðurins.“
29 „Nú talar þú berum orðum en ekki í líkingum, “sögðu lærisveinar hans.
30 „Nú vitum við að þú veist allt og þarft ekki að láta neinn segja þér neitt. Þess vegna trúum við líka að þú sért kominn frá Guði.“
31 „Trúið þið því loksins?“spurði Jesús.
32 „Stundin nálgast, hún er reyndar þegar komin, er þið tvístrist og snúið hver til síns heima en skiljið mig einan eftir. Þrátt fyrir það verð ég ekki einn, því að faðirinn verður hjá mér.
33 Þetta hef ég sagt ykkur til þess að þið haldið hugarró. Ykkar bíða þrengingar og sorgir í þessum heimi, en verið hughraustir, ég hef sigrað heiminn!“