< Postulasagan 3 >
1 Dag nokkurn fóru Pétur og Jóhannes upp í musterið til þess að taka þátt í hinni daglegu bænastund, sem var klukkan þrjú síðdegis.
2 Þegar þeir gengu inn, sáu þeir að lamaður maður var borinn þangað og lagður við eitt musterishliðið, sem kallað var Fögrudyr. Þarna var hann vanur að vera á hverjum degi.
3 Þegar Pétur og Jóhannes gengu fram hjá honum, bað hann þá um peninga.
4 Þeir virtu hann fyrir sér og Pétur sagði: „Horfðu hingað.“
5 Lamaði maðurinn einblíndi á þá í von um að fá eitthvað.
6 „Peninga á ég ekki, “sagði Pétur, „en ég skal gefa þér það sem ég hef. Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, segi ég: Gakktu!“
7 Pétur tók í höndina á lamaða manninum til að reisa hann upp. Um leið urðu fætur hans og ökklar styrkir og hann stökk á fætur. Hann stóð andartak kyrr, en fór síðan að ganga! Hann gekk, hljóp og lofaði Guð og fór svo með þeim inn í musterið.
8
9 Þegar fólkið, sem var inni í musterinu, sá manninn ganga um og lofa Guð,
10 áttaði það sig. Þetta var lamaði betlarinn, sem það hafði séð svo oft við Fögrudyr. Allir urðu furðu lostnir.
11 Fólk streymdi nú frá sér numið til súlnaganga Salómons, þar sem betlarinn hélt sig nærri Pétri og Jóhannesi.
12 Pétur notaði tækifærið og ávarpaði mannfjöldann: „Ísraelsmenn, hvers vegna eruð þið svona undrandi og hví starið þið á okkur? Haldið þið ef til vill að við höfum í eigin krafti og guðdómleika gert þennan mann færan um að ganga?
13 Nei, það er Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs – Guð forfeðra okkar, sem hefur gert Jesú, þjón sinn, dýrlegan á þennan hátt. Ég á við Jesú, sem þið höfnuðuð frammi fyrir Pílatusi, þrátt fyrir ásetning Pílatusar um að láta hann lausan.
14 Þið vilduð ekki að honum yrði sleppt, hann sem er heilagur og réttlátur. Í hans stað heimtuðuð þið morðingjann lausan,
15 og deydduð höfund lífsins, Jesú. En Guð reisti hann upp frá dauðum. Það getum við Jóhannes staðfest, því að eftir að þið líflétuð hann, sáum við hann lifandi!
16 Það er Jesús sem læknaði þennan mann, en hann var lamaður, það vitið þið. Trúin á mátt Jesú hefur gert þessa fullkomnu lækningu mögulega.
17 Kæru vinir, ég veit að það sem þið gerðuð við Jesú, var gert af vanþekkingu og sama má segja um leiðtoga ykkar.
18 En þessa leið fór Guð til að uppfylla spádómana um að Kristur yrði að þjást.
19 Breytið nú um hugarfar og gerið iðrun. Snúið ykkur til Guðs, svo að hann geti hreinsað burt syndir ykkar. Hann getur gefið ykkur endurnýjunartíma
20 og sent ykkur Jesú á ný, konunginn, sem ykkur hafði verið heitinn.
21 Jesús verður að dveljast á himnum uns allt, sem syndin eyðilagði, hefur verið endurnýjað, eins og lofað var í upphafi. Móse sagði til dæmis fyrir löngu: „Drottinn Guð mun vekja upp spámann líkan mér á meðal ykkar. Hlustið með athygli á orð hans, (aiōn )
22
23 því að þeim, sem óhlýðnast honum, verður tortímt.“
24 Samúel og allir spámennirnir, sem eftir hann komu, hafa rætt um það sem nú er að gerast.
25 Þið eruð afkomendur spámannanna og ykkur er einnig ætlað þetta loforð, sem Guð gaf forfeðrum ykkar. Hann ætlar að nota Gyðinga sem farveg fyrir blessun sína um allan heiminn – um það hljóðaði loforðið sem Guð gaf Abraham.
26 Þegar Guð hafði vakið þjón sinn aftur til lífsins, sendi hann hann til ykkar Ísraelsmanna til blessunar og til þess að leiða ykkur burt frá syndinni.“