< 2 Tímóteusarbréf 3 >
1 Eitt er það enn sem þér er nauðsynlegt að vita, Tímóteus, á hinum síðustu dögum verður mjög erfitt að vera kristinn.
2 Þá munu menn verða sjálfselskir og ágjarnir. Þeir verða stoltir og hrokafullir, fyrirlíta Guð og verða foreldrum sínum óhlýðnir og vanþakklátir. Illskan mun vaxa á flestum sviðum.
3 Menn verða miskunnarlausir og ófúsir að vægja. Þeim verður eðlilegt að ljúga og sýna ýmiskonar yfirgang. Menn kæra sig kollótta um gott siðferði en verða óheflaðir og grimmir, og fyrirlíta það sem gott er.
4 Þeir munu svíkja vini sína, vera framhleypnir og hrokafullir og elska lífsgæðin meira en Guð.
5 Menn munu að vísu sækja kirkjur, en það mun hafa lítil áhrif á þá. Haltu þér frá slíkum mönnum.
6 Úr þessum hópi koma þeir sem smeygja sér inn á heimili annarra og koma sér í mjúkinn hjá grunnhyggnu og syndugu kvenfólki, sem lætur leiðast af fýsnum sínum.
7 Þessar konur fylgja öllum nýjum kenningum sem þær heyra en öðlast þó aldrei skilning á sannleikanum.
8 Þessir kennimenn vinna gegn sannleikanum, rétt eins og Jannes og Jambres börðust gegn Móse. Þeir eru afvegaleiddir, hafa óhreint hugarfar og hafa snúist gegn kristinni trú.
9 En þeim verður ekki stætt á þessu til lengdar, því að dag einn munu svik þeirra verða lýðum ljós, rétt eins og svik Jannesar og Jambresar.
10 Tímóteus, þú þekkir mig og veist að ég er ekki af slíku sauðahúsi. Þú veist hverju ég trúi, hvernig ég lifi og hvert ég stefni. Þú þekkir trú mína á Krist og veist hvað ég hef orðið að þola. Þú veist hve heitt ég elska þig og þekkir einnig þolinmæði mína.
11 Þér er kunnugt um alla erfiðleikana sem ég hef mætt vegna fagnaðarerindisins. Þú veist vel hvað gert var við mig í Antíokkíu, Íkóníum og Lýstru en Drottinn bjargaði mér úr því öllu.
12 Allir sem í sannleika hlýða Jesú Kristi og lifa guðrækilegu lífi, munu ofsóttir verða.
13 Illmenni og falskennendur munu sækja í sig veðrið og leiða marga í villu, enda sjálfir afvegaleiddir af Satan.
14 Haltu fast í trúna á það sem þér hefur verið kennt! Þú veist að það er sannleikurinn, enda getur þú treyst okkur sem kenndum þér það.
15 Þú manst að þegar þú varst drengur, var þér kennt að þekkja Guðs orð og þar er okkur sagt hvernig við eignumst hjálpræði Guðs í trúnni á Jesú Krist.
16 Öll Biblían er orð Guðs, því að hún er innblásin af heilögum anda. Hún kennir okkur sannleikann og bendir okkur á það sem rangt er í lífi okkar. Hún leiðréttir okkur og hjálpar okkur að gera það sem rétt er.
17 Hún er verkfæri Guðs til að móta líf okkar og gera okkur hæf til að vinna það sem gott er.