< 2 Korintubréf 4 >
1 Sjálfur Guð hefur af miskunn sinni fengið okkur þetta mikla hlutverk (að flytja öðrum gleðiboðskapinn) og þess vegna gefumst við aldrei upp.
2 Við reynum ekki að fá fólk til að trúa með því að beita það brögðum – við höfum ekki áhuga á að blekkja neinn. Við reynum aldrei að telja neinum trú um að Biblían kenni eitthvað sem hún alls ekki kennir. Við forðumst alla slíka pretti. Þegar við tölum, þá stöndum við frammi fyrir augliti Guðs og því segjum við sannleikann – um það eru allir sammála sem okkur þekkja.
3 Ef einhverjir skilja ekki fagnaðarerindið sem við flytjum, þá eru það þeir sem ganga veg hins eilífa dauða.
4 Satan, – guð þessa heims, sem sneri baki við Drottni – hefur blindað þá og komið í veg fyrir að þeir sæju birtuna sem stafar af fagnaðarerindinu. Þeir skilja ekki heldur hinn stórkostlega boðskap sem við flytjum, boðskapinn um dýrð Krists, hann sem birtir okkur Guð. (aiōn )
5 Við ferðumst ekki um til að predika um okkur sjálfa, heldur til að boða að Jesús Kristur sé Drottinn. Við segjum að við séum þjónar ykkar, vegna þess sem Jesús hefur gert fyrir okkur.
6 Guð sagði: „Ljós skal skína í myrkrinu.“– Hann lét það skína inn í sálir okkar til þess að þaðan bæri birtu af dýrð Guðs, eins og hún birtist í Jesú Kristi sjálfum.
7 Við sem höfum þennan mikla fjársjóð – ljósið og kraftinn sem nú skín innra með okkur – erum bara eins og brothætt ílát, leirker, til að öllum verði ljóst að þessi dýrlegi kraftur, sem í okkur er, hlýtur að vera frá Guði en ekki frá sjálfum okkur.
8 Erfiðleikar þrengja að á báða bóga, en samt höfum við ekki látið undan síga. Við erum oft spyrjandi, því við skiljum alls ekki hvers vegna margt fer eins og það fer, en samt hættum við hvorki né gefumst upp.
9 Við erum ofsóttir eins og frekast er unnt, en Guð sleppir samt aldrei af okkur hendi sinni. Við erum felldir til jarðar, en rísum þó aftur á fætur og höldum leiðar okkar.
10 Við horfumst sífellt í augu við dauðann, eins og Jesús, og því er augljóst mál að það er aðeins hinn upprisni Kristur, sem heldur í okkur lífinu og verndar okkur.
11 Já, við erum í stöðugri lífshættu vegna þess að við þjónum Drottni, en þannig fáum við ný tækifæri til að sýna kraft Jesú Krists í dauðlegum líkömum okkar.
12 Vegna predikunar okkar horfumst við í augu við dauðann, en það sem við berum úr býtum er eilíft líf ykkur til handa.
13 Við tölum djarflega um trú okkar á sama hátt og sálmaskáldið gerði, þegar hann sagði: „Ég trúi – þess vegna tala ég.“
14 Við vitum að sá sami Guð sem reisti Drottin Jesú upp frá dauðum, mun einnig reisa okkur frá dauðum ásamt Jesú og leiða okkur fram fyrir hann ásamt ykkur.
15 Þjáningar okkar verða ykkur til góðs og því fleiri sem vinnast fyrir Krist ykkar á meðal, því fleiri þakka honum og því meira verður nafn Drottins vegsamað.
16 Þetta er ástæða þess að við gefumst aldrei upp. Þótt líkamar okkar hrörni smátt og smátt, þá vex styrkur okkar í Drottni dag frá degi.
17 Erfiðleikar okkar eru smámunir einir, sem vara munu stuttan tíma. Þessir skammvinnu erfiðleikar leiða þó ríkulega blessun Guðs yfir líf okkar – blessun sem vara mun til eilífðar! (aiōnios )
18 Þess vegna horfum við ekki á það sem við sjáum þessa stundina, erfiðleikana sem eru allt í kring um okkur, heldur fram til þeirrar gleði á himnum sem við munum sjá. Þrengingarnar eru skammvinnar en fögnuðurinn, sem í vændum er, mun aldrei taka enda. (aiōnios )